154. löggjafarþing — 110. fundur,  13. maí 2024.

kynhlutleysi í íslensku máli.

[15:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og get ekki skilið það öðruvísi en ráðherrunum hugnist ekki sú þróun sem hér er að eiga sér stað. Mann rekur í rogastans þegar upplýst er um að öll hafi gert hitt og þetta. Það veit enginn hvort það eru öll dýrin í skóginum eða öll kynin eða hvað í ósköpunum er átt við en sjaldnast passar það inn í þá setningu sem verið er að setja fram. Það er auðvitað áhyggjuefni, af því að nú beini ég umræðunni hér sérstaklega í átt að Ríkisútvarpinu og með hvaða hætti íslensk málfræði er meðhöndluð þar nú um stundir, en þetta er auðvitað stærri heildarmynd. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Sér ráðherra fyrir sér að gera eitthvað í þessu máli, stíga inn í málið með einhverjum hætti annaðhvort gagnvart Ríkisútvarpinu með beinum hætti eða með einhverjum aðgerðum sem hvetja til þess að íslensk málfræði verði meðhöndluð sérstaklega af opinberum aðilum með forsvaranlegum hætti?